Á bænum Hjallanesi bjuggu á 19. öld hjónin Björn Björnsson og Guðrún Jónsdóttir. Guðrún var af auðugum ættum í Mörk en Björn leiguliðasonur á jörð sem hans fólk hafði setið í kynslóðir. Þau giftust eftir að hafa átt tvö börn í lausaleik og hófu búskap sem gekk vel um hríð, en harðindi, fjárkláði og kuldaskeið drógu smám saman úr efnum þeirra. Börnin þeirra áttu sjálf mörg hver erfitt uppdráttar; fleiri en eitt eignaðist barn í lausaleik áður en þau fundu sér fótfestu í lífinu. Tvö bjuggu áfram í sömu sveit, önnur enduðu í Reykjavík og tvö fóru vestur um haf þar sem þau tóku mormónatrú. Í minningum afkomenda í Utah var Björn sagður sterkur og skapheitur en réttsýnn og Guðrún blíð og þolinmóð kona sem erfitt átti með að aðlagast fátæktinni sem varð hlutskipti þeirra.